„Trúi ekki á instant byltingar“
Það er mannskemmandi að fara í pólitík. Þetta vita allir - flestir hafa að minnsta kosti heyrt eða jafnvel sagt þennan frasa. Ég velti stundum fyrir mér hversu skaðlegur þessi frasi getur verið. Ég ætla að gefa mér að þeir sem fara út í stjórnmál vilji á einhvern hátt hafa áhrif á samfélag okkar: heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál, jafnréttismál eða félagslega kerfið eða hvað þau heita öll þessi kerfi sem hafa orðið til á 20. öld og eru orðin svo stór hluti af lífi okkar að við tökum ekki lengur eftir þeim. En þegar einhver sem ég þekki og treysti segist ætla að fara út í pólitík - á ég að segja við hann:
Ekki fara - það er mannskemmandi að fara í pólitík? Vil ég að pólitík sé til eða vil ég eitthvað annað kerfi? Hvaða kerfi þá? Og ef ég segi góða fólkinu að bjóða sig ekki fram, hvaða fólk vil ég þá að stýri þessum mikilvægu málaflokkum?
Ég geri mér ekki vonir um að næstu ár verði sérlega auðveld, það þýðir þó ekki endilega að hlutir þurfi að vera leiðinlegir. Samtakamáttur fólks getur verið hlaðinn jákvæðri orku og rökræður geta skilað góðri niðurstöðu og svo eru oft alveg ágæt og uppbyggileg orka í mótmælum eða reiði. En ég held að við komumst ekkert nema gott fólk sé tilbúið að leggja alla sína orku, tíma og hugsjón í þau verkefni sem framundan eru. Ég held að það sé þörf á fólki sem hefur sýnt borgaralegt hugrekki, hefur sýnt þrautseigju og fylgt hugsjónum sínum fast eftir í orði og á borði. Mér finnst að þegar slíkt fólk býður sig fram - þá eigum við að taka á móti því.
Á lista Samfylkingarinnar eru tveir frambjóðendur sem ég vil gjarnan að nái kjöri núna á laugardag. Bjarni Karlsson hefur í starfi sínu sem sóknarprestur öðlast gríðarlega þekkingu og skilning á flestum málaflokkum sem snerta nánast allt sem kalla má „lífið“ - frá vöggu til grafar. Hann hefur innsýn í málefni barna, unglinga, aldraðra og fatlaðra. Hann hefur reynslu af því að vinna með fólki á öllum aldri og af öllum stigum þjóðfélagsins og hann hefur tekið þátt í lífi fólks í gleði og sorg. Hann hefur aldrei sótt í „þægindin“ hann hefur unnið á virkan hátt gegn kynþáttafordómum og talað fyrir skilningi milli trúarhópa. Hann hefur einnig beitt sér á virkan og opinberan hátt í þágu samkynhneigðra og viðurkenningu þeirra innan þjóðkirkjunnar. Hann er óhræddur við að takast á við erfið og krefjandi viðfangsefni og hann fylgir þeim eftir af ástríðu og heilindum. Ég held að það sé mikil þörf á slíkum manni í borgarstjórn einmitt núna.
Hjálmar Sveinsson þorði að vera leiðinlegur á tímum þegar ekki mátti vera leiðinlegur eða gagnrýninn á Íslandi og það var margoft reynt að þjarma að stöðu hans í útvarpinu á sínum tíma. Á síðustu árum hefur hann vakið athygli fyrir óvenju djúpa og vandaða greiningu á þeim skipulagsvanda sem blasir við á höfuðborgarsvæðinu og verið einn af fáum sem hefur viljað hrófla við smákóngaveldinu sem er smám saman að eyðileggja höfuðborgarsvæðið með vanhugsuðum og illa skipulögðum framkvæmdum. Það þarf að laga mikið til í innviðum borgarinnar, ég held að við þurfum menn með sterka sýn til að stuðla að breytingum, svo að borgin þróist í rétta átt þegar næsta byggingarskeið hefst. Ég held að það þurfi menn sem hafa hugsað mikið og lengi um skipulagsmál og ég held að það þurfi mikla þekkingu og brennandi áhuga til að einhver breyting verði á. Þess vegna vil ég mjög gjarnan sjá Hjálmar Sveinsson komast að í borgarstjórn. Hjálmar hefur auk þess mikla þekkingu á hálendi Íslands og orkumálum á Íslandi, hann hefur skrifað og fjallað um myndlist og tónlist og skrifað um borgarskáldin sem hafa sett mark sitt á borgina og borgarlífið á síðusu árum og áratugum. Ég er alveg sannfærður um að kraftar hans og reynsla muni gagnast Reykvíkingum vel.
Ég trúi ekki á neinar instant byltingar. Ég vona að samfélagið lagist smám saman með því að stjórnmálin laði til sín gott og reynslumikið fólk sem hefur einhverja sýn og vill láta gott af sér leiða. Ég held að fólk haldi áfram að vera fólk með öllum sínum kostum og göllum. Stjórnmál eru ekki mannskemmandi, við eigum að hvetja fólk til að taka þátt í stjórnmálum og hafa áhrif á mótun samfélagsins. Það er eina byltingin sem mér dettur í hug í augnablikinu. Það vantar gott fólk í alla flokka, sem kjósandi hefur mér sjaldan fundist jafn mikil þekking og reynsla standa mér til boða og finna má í framboði þeirra Bjarna og Hjálmars, að öllum öðrum ólöstuðum auðvitað.
Andri Snær Magnason rithöfundur
(greinin birtist í blaðinu „Vekjum Reykjavík“)