ATVIK - fræðibókaritröð

Hjálmar Sveinsson er stofnandi og ritstjóri ritraðarinnar Atvik. Atvik er vettvangur þar sem hugmyndir og rannsóknir eru kynntar með þýðingum og frumsömdum textum í hnitmiðuðum smáritum, handhægum og ódýrum bókum í vasabroti. Atviks-bókunum er ætlað að draga fram athyglisverðar hræringar í menningarlífi hér á landi og erlendis og örva umræðu um knýjandi efni sem tengjast samtímanum.


Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar

Ritstjórar Hjálmar Sveinsson og Irma Erlingsdóttir

Þetta er safn greina sem upphaflega birtist í þýska vikuritinu Die Zeit. Hér velta nokkrir þekktustu félagsfræðingar og stjórnmálafræðingar samtímans fyrir sér framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar.


Að sjá meira - Susan Sontag

Ritstjóri Hjálmar Sveinsson

Susan Sontag var meðal snjöllustu essayista síðustu áratuga. Ritgerðum hennar var reyndar ekki ætlað að sanna eitt eða neitt eða byggja upp akademíska kenningu um veruleikann. Þær eru miklu frekar knúnar áfram af einstöku næmi fyrir margbreytileika hlutanna eins og þeir birtast okkur – og sterkri réttlætiskennd. Í ritgerðum sínum hnitar hún stóra og smáa hringi í kringum kjarna hvers máls, kjarna sem reynist oft vera siðfræðileg og fagurfræðileg þversögn.


Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar - Walter Benjamin

Ritstjóri Hjálmar Sveinsson

Greinasafn eftir Walter Benjamin. Fjöldinn hefur nú jafn knýjandi þörf fyrir að færa hlutina "nær" sér bæði í landfræðilegum og mannlegum skilningi og að yfirvinna hið einstæða við hvern viðburð með því að notast við eftirmynd hans.